26.5.2007 | 11:54
Óheppnir ógæfumenn
Ég rakst á grein í Fréttablaðinu í morgun um tvo meðbræður sem virðist hafa verið svo þyrstir (í guðs orð) að þeir ákváðu að taka það með sér í nesti, eftir heimsókn utan opnunartíma í Krísuvíkurkirkju.
Það fylgir ekki sögunni hve lengi þeir gátu notið þess að sumbla á því en þeir voru teknir fyrir austan fjall, geri ég ráð fyrir, undir annarlegum áhrifum anda og Saltarinn tekinn úr þeirra höndum svo ekki var um að ræða að teyga lengur guðanna veigar.
Vel virðist hafa verið tekið á móti laganna vörðum þegar þeir snéru með Orðið til heimahaganna enda segir sagan að þeir hafi bjargað brauðinu frá messufalli um Hvítasunnuna. Við lestur greinarinnar get ég varla forðað huganum frá að flögra aðeins og sé fyrir mér að slegið hafi verið til veislu og sennilega alikálfinum slátrað til að fagna endurfundum.
Eftir veisluna má sjá veislugesti bera fangarana á herðum sér til kirkju, og messað með maríubænum og söng til heiðurs og andlegrar upplyftingar þessum tveim hetjum.(Starsky & Hutch)
Þetta minnir mig á sögu af góðum vini mínum sem af svipaðri ástríðu fyrir kirkjum heimsótti landsfræga kirkju fyrir austan og hugðist forvitnast um innihald söfnunarbauksins en hann sárvantaði skotsilfur til að halda bissnissnum gangandi þar sem companíjið hans átti í einhverjum kröggum.
Þegar hann var kominn upp í gluggann ,sem stóð galopinn , var eins og honum hefði verið hent til jarðar og vissi vinurinn ekki fyrr en hann lá þar með brotinn lærlegg.
Þegar búið var að negla legginn saman á sjúkrahúsi var hann staddur einn í lyftunni, í hjólastól, þegar hún opnast, og í bjarmanum af ljósinu sem blindaði hann stóð sjálfur biskup Íslands og steig inní lyftuna , leit á hann um leið og fingurinn valsaði milli takkans sem benti lyftunni upp eða niður í kjallara.
Hvað kom fyrir þig vinur? spurði biskup.
Vinur minn lýsti fyrir mér hvernig hjartað barðist um í honum þegar hann sat frammi fyrir því að segja satt eða hliðra aðeins til atburðarrásinni og sagði biskup alla sólarsöguna um það hvernig hann hefði dottið illa á tröppunum við Háskólann og meitt sig svona illa.
Hann var varla byrjaður á sögunni þegar biskupinn ýtti á takkann sem fór með lyftuna niður í kjallara.
Jæja ég enda þessar morgunhugleiðingar með smá vísum sem skaut uppí kollinn á mér eftir lestur áðurnefndrar blaðagreinar og held inní daginn þar sem bátur bíður mín við landfestar og sólin skín.
Að lokinni heilagri helgistund Það virðist buga margan mann
heiðraðir undir Maríu bænum sem man sinn fífil fegri ,áður
Héldu af stað svo léttir í lund að burðast með sjálfan Saltarann
laganna verðir, í einum grænum. stolinn yfir heiðar, þjáður.
Athugasemdir
Þú kemur mér endalaust yndislega á óvart, verður gaman að fylgjast með hugarleikfiminni hér...
Báran, 26.5.2007 kl. 14:24
Já minnir mig á vísukorn sem ég var einmitt að semja, já bara rétt í þessu ótrúlegt en satt.
Fagri jarpur svo léttur í lund
Óskaplegur garpur.
Sagðist vera að hugsa um að skella sér á sund,
björgunarbáturinn bara sarpur
Ekki falleg, en varla ömurleg svona í fyrstu atrennu
Baldvin Jónsson, 27.5.2007 kl. 23:51
Hvað á þetta að þýða ??? Var að reyna að skrifa í gestabókina en hún neitar að taka við því sem ég skrifa....????!!!!
Jæja, en velkominn í bloggheiminn kallinn minn. Ég fylgist með þér.
Bryndís Halldóra Jónsdóttir, 8.6.2007 kl. 10:42
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.